Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Þjónustusvæði Vesturlands bs.

Reglur um styrki til náms-, verkfæra- og tækjakaupa


 

1. Inntak og markmið

Reglur þessar taka til styrkja sem veittir eru á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, ennfremur með síðari breytingum.

 

Markmið reglna þessara eru að auðvelda fólki með fötlun, á aldrinum 18 – 66 ára, að verða sér úti um þekkingu, færni og reynslu til að stuðla að auknum möguleikum þess til virkrar þátttöku í samfélaginu, í atvinnu– og eða félagslífi. Í þessum tilgangi er veittur styrkur vegna:

 

· Menntunar- eða námskeiðskostnaðar sem ekki er greiddur eða styrktur á grundvelli annarra laga.

· Kaupa á verkfærum, tækjum eða áhöldum sem ætlað er að auðvelda fólki með fötlun að skapa sér heimavinnu eða til sjálfstæðrar starfsemi í kjölfar endurhæfingar.

 

2. Forsendur styrkveitingar

Sá sem býr við andlega eða líkamlega fötlun og þarfnast sérstaks stuðnings af þeim sökum getur sótt um styrk samkvæmt reglum þessum að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum:

 

· Eigi lögheimili á Þjónustusvæði Vesturlands bs

· Hafi náð 18 ára aldri

· Búi við varanlega örorku

 

3. Auglýsingar

Þjónusturáðs Vesturlands auglýsir eftir umsóknum að hausti í héraðsfréttablöðum Vesturlands og á heimasíðum sveitarfélaganna.

 

4. Umsóknarferli

Skrifleg umsókn um styrkveitingu ásamt greinargerð og fylgigögnum berist félagþjónustusvæðunum, Akranesi, Borgarbyggð og Snæfellsnesi.

 

Þjónusturáðs afgreiðir umsóknir í samræmi við reglur þessar.

 

Öflun gagna og upplýsinga við mat á umsóknum er unnin í samvinnu við umsækjanda. Umsækjandi getur einnig veitt öðrum skriflegt umboð sitt til að sækja um styrkveitingu fyrir sína hönd.

 

5. Fylgigögn umsóknar

Umsókn um styrk til greiðslu námskostnaðar þurfa að fylgja eftirtalin gögn:

 

1. Staðfesting um skráningu í nám eða á námskeið

2. Frumrit kvittunar fyrir greiðslu námskeiðs- eða skólagjalda

3. Ef sótt er um styrk vegna námsgagna þarf að fylgja sundurliðun á kostnaði við þau og staðfesting á nauðsyn þeirra.

4. Staðfest skattframtal

5. Yfirlýsing umsækjenda eða talsmanns hans um að aðrir möguleikar til styrkja hafi verið kannaðir og fullnýttir, þ.á.m. sjóðir stéttarfélags, lögbundin framlög vegna hjálpartækja og ef nám er lánshæft skv. lögum og úthlutunarreglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Umsókn um styrk til verkfæra- eða tækjakaupa þurfa að fylgja eftirtalin gögn:

1. Frumrit kvittunar fyrir verkfæra- eða tækjakaupum

2. Staðfest skattframtal

3. Lýsing umsækjanda eða talsmanns hans á ástæðum styrkumsóknar, m.a. um gagnsemi styrks til að auka virkni umsækjenda og möguleika til atvinnuþátttöku.

 

6. Afgreiðsla umsókna

Félagsþjónusta sveitarfélags staðfestir móttöku umsókna innan 2ja vikna frá móttöku þeirra og kallar eftir frekari upplýsingum ef þörf er á.

 

Að lokinni úthlutun skal umsækjendum send bréflega tilkynningu um afgreiðslu umsóknar þeirra.

 

Styrkur er eingöngu greiddur inn á persónulegan reikning umsækjenda samkvæmt framlagðri kvittun fyrir kaupum verkfæra eða tækja og greiddum skóla- eða námskeiðsgjöldum.

 

Athygli styrkþega skal vakin á framtalsskyldu vegna styrkveitingar og skal honum leiðbeint um hvar á skattframtali skuli færa styrkupphæð.

 

7. Úthlutun styrkja

Tekið er mið af eftirtöldum atriðum við úthlutun styrkja:

· Heildarfjárhæð til úthlutunar er ákveðin í fjárhagsáætlun hvers árs.

· Úthlutað er einu sinni á ári á grundvelli auglýsingar

· Styrkur til verkfæra- eða tækjakaupa er að öllu jöfnu ekki veittur sama einstaklingi oftar en á þriggja ára fresti.

· Komi til þess að skerða þurfi úthlutun vegna fjölda umsókna eða röskunar á forsendum fyrir úthlutun er heimilt að forgangsraða umsóknum

 

8. Endurkröfuréttur

Styrkir sem veittir eru á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi styrkþega eru að jafnaði endurkræfir. Sama á við ef þeir eru nýttir til annars en umsókn gerði ráð fyrir. Þjónusturáð Vesturlands áskilur sér rétt til að endurkrefja hlutaðeigandi um fjárhæð úthlutaðs styrkjar skv. almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt er við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hefur veitt séu rangar eða villandi er meðferð umsóknar stöðvuð og kemur hún þ.a.l. ekki til afgreiðslu.

 

9. Málsmeðferð og málskot

Sé umsókn hafnað skal sú ákvörðun rökstudd og umsækjanda bent á áfrýjunarrétt sinn til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála innan fjögurra vikna.

 

10. Endurskoðun

Reglur þessar eru settar með hliðsjón af 27. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum og leiðbeinandi reglum velferðarráðherra fyrir sveitarfélög þar að lútandi.

 

Samþykkt í Þjónusturáði Vesturlands bs. 27. september, 2012

Lagt fyrir stjórn SSV og félagsmálanefndir Akranesskaupstaðar, Borgarbyggðar og Snæfellsness í október, 2012