SÆLINGSDALSTUNGA til leigu og/eða sölu

DalabyggðFréttir

Búskapur og/eða önnur starfsemi:
Hluti jarðarinnar Sælingsdalstungu (ekki frístundasvæði né fjalllendi) er til leigu eða sölu. Um er að ræða 270 hektara jörð sem getur hentað til búskapar, ferðaþjónustu eða sambærilegrar starfsemi. Tilboðsgjafar skulu í tilboðum sínum gera grein fyrir þeirri starfsemi sem þeir hyggjast stunda á jörðinni en hún skal samræmast þeirri starfsemi sem er í næsta nágrenni og samrýmast markmiðum Dalabyggðar með ráðstöfun jarðarhlutans sem er atvinnusköpun í Dalabyggð.
Frístundasvæði:
Til sölu er hluti jarðarinnar Sælingsdalstungu, Dalabyggð, þ.e. sá hluti hennar sem hefur verið skipulagður undir frístundahúsabyggð en það eru 105 hektarar og liggur nálægt Laugum í Sælingsdal. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er þar gert ráð fyrir 54 frístundahúsum. Svæðið verður selt í núverandi ástandi en m.a. er eftir leggja vatnsveitu og vegi að mestu leyti. Væntanlegur kaupandi skal hefja framkvæmdir á svæðinu innan 16 mánaða frá undirritun kaupsamnings og innan þriggja ára skal a.m.k. helmingur svæðisins vera uppbyggt. Í kaupsamningi verður kveðið á um heimild seljanda til að rifta kaupum verði ekki staðið við umsamda skilmála.
Tilboðum skal skilað í síðasta lagi 20. desember 2008 á skrifstofu Dalabyggðar, Miðbraut 11, 370 Búðardal. Dalabyggð áskilur sér rétt að taka hvaða tilboði sem er eða hafna öllum en við mat á tilboðum verður sérstaklega litið til þess hvort markmið Dalabyggðar með ráðstöfun á þessum jarðarhlutum nái fram að ganga með því að samþykkja framkomið tilboð.

Allar nánari upplýsingar veitir sveitarstjóri í síma 4304700 og á netpósti: grimur@dalir.is
Grímur Atlason, sveitarstjóri.
  • Var efni síðunnar hjálplegt?
  • Nei