Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Jafnréttisáætlun Dalabyggðar


 

 

Hlutverk jafnréttisnefndar – félagsmálanefnd fer með málefni nefndarinnar

 

Jafnréttisnefnd Dalabyggðar starfar í umboði sveitarstjórnar að jafnréttismálum í sveitarfélaginu.

 

Jafnréttisnefnd hefur með höndum jafnréttismál innan sveitarfélagsins. Nefndin skal vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórn í málum er varða jafnrétti kvenna og karla. Einnig skal nefndin fylgjast með og hafa frumkvæði að aðgerðum, þ. m. t. sértækum aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

 

Jafnréttisnefnd endurskoðar jafnréttisáætlun sveitarfélagsins í upphafi hvers kjörtímabils og leggur fyrir sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir kosningar.

 

Jafnréttisáætlunin er unnin samkvæmt 12. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008. Áætlunin tekur til verkefna jafnréttisnefndar, stjórnkerfis og starfsmannastefnu sveitarfélagsins, samspils atvinnu- og fjölskyldulífs, kannana og rannsókna, fræðslu og leiðsagnar, kynningar og endurskoðunar.

 

Markmiðið með áætluninni er að tryggja jafnrétti kynjanna og stuðla að kynjasamþættingu í allri starfsemi sveitarfélagsins. Tilmælum er einnig beint til annarra aðila að tryggja jafnrétti.

 

Leiðir til þess að ná markmiðunum er að finna í áætluninni.

 

Umfang jafnréttisáætlunar og framkvæmd

Jafnréttisáætlun Dalabyggðar nær til stjórnsýslu sveitarfélagsins og starfsmanna þess.  Þá nær áætlunin einnig til þeirrar starfsemi og þjónustu sem veitt er á vegum stofnana sveitarfélagsins.  Auk þess eru tilmæli í áætluninni sem beint er til fyrirtækja og starfsemi sem er óháð rekstri sveitarfélagsins. 

 

Jafnréttismál heyra til félagsmálanefndar Dalabyggðar. Til þess að framfylgja jafnréttisáætlun og framfylgja verkefnum á sviði jafnréttismála skal gert ráð fyrir framlagi á fjárhagsáætlun á ári hverju.  Jafnréttisnefnd kallar til ráðgjafar og samstarfs þá starfsmenn sem hún telur nauðsynlegt óháð því á hvaða sviði þeir starfa.  Slík vinnubrögð auðvelda samþættingu jafnréttissjónarmiða við aðra meginstarfsemi sveitarfélagsins.

 

Því er beint til stjórnenda á vegum sveitarfélagsins að sjá til þess að markmið jafnréttisáætlunarinnar nái fram og að þeir stuðli að auknu jafnrétti kynjanna í allri starfsemi á vegum sveitarfélagsins.

 

Nefndir og ráð

Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum Dalabyggðar skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki lægra en 40% hjá því kyni sem hallar á þegar fleiri en 3 eiga sæti í viðkomandi nefnd.

 

Aðgerðir: Kannað sé strax eftir kosningar og á miðju kjörtímabili kynjaskiptingu í nefndum, ráðum og starfshópum á vegum sveitarfélagsins. Ábyrgð á þessu er í höndum félagsmálanefndar.

 

Kynja- og jafnréttissjónarmið skulu samþætt inn í alla stefnumótum, ákvarðanatöku og fjárveitingar á vegum sveitarfélagsins. Gæta skal jafnræðis og konum og körlum ekki mismunað í þjónustu af hálfu sveitarfélagsins.

 

Aðgerðir:Kyngreina skal alla tölfræði í hagsýslugerð um þjónustu við einstaklinga og er það á ábyrgð sveitarstjóra. Þau verkefni sem eru í gangi hverju sinni skal leggja mat á hvort ákvarðanir og fjárveitingar komu út á mismunandi hátt eftir kyni og er það á ábyrgð sveitarstjóra og byggðarráðs. Þetta verkefni er viðvarandi.

 

Starfsmenn

1) Laun: Jafnréttislög kveða á um að konum og körlum sem starfa hjá sama atvinnurekanda skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Við ákvörðun launa og fríðinda skal staða kynjanna vera jöfn. Einnig skal þess gætt að við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir sé kynjunum ekki mismunað. Ákvörðun um laun og fríðindi þeirra starfsmanna, umfram kjarasamninga skal tekin af 3ja manna nefnd; sveitarstjóra, launafulltrúa og starfsmanni jafnréttisnefndar. Ábyrða á þessu er í höndum sveitarstjóra. Þetta verkefni er ekki tímasett heldur er það viðvarandi. Framkvæmd skal könnun á kjörum kynjanna á tveggja ára fresti. Það skal vera í höndum félagsnefndar/jafnréttisnefndar.

 

2) Auglýsingar og ráðningar starfsmanna: Vinna skal markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan sveitarfélagsins og stuðla að því að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf. Einnig skal leggja áherslu á að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum. Jafnréttissjónarmið skulu til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið lögð til grundvallar við ráðningar starfsmanna. Lausar stöður hjá sveitarfélaginu skulu ávallt auglýstar til umsóknar og skulu auglýsingar verða aðgengilegar öllum. Halda skal í heiðri þeirri reglu að þeir sem ráðnir eru uppfylli þær faglegu kröfur sem gerðar eru til starfsins. Ábyrgð á þessu bera þeir yfirmenn sem koma að ráðningum í laus störf.

 

3) Starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun:Atvinnurekendum ber í samræmi við lög að tryggja að konur og karlar njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar svo og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf. Aðgerðir: Setja skal reglur um sí- og endurmenntun og starfsþjálfun og ber sveitarstjóri ábyrgð á því. Þetta skal gert á hverju vori.

4) Samræming fjölskyldu-og atvinnulífs: Vellíðan starfsmanna á vinnustað er forsenda þess að þeir njóti sín og mannauðurinn nýtist. Stuðla skal að sem bestu samspili atvinnu- og fjölskyldulífs meðal starfsmanna sveitarfélagsins. Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Til þess að auðvelda þetta skal starfsfólki eftir því sem við verður komið eiga kost á sveigjanlegum vinnutíma og/eða breyttum starfshlutföllum. Tekið skal tillit til starfsmanna sem þurfa að taka á sig aukna fjölskylduábyrgð vegna óviðráðanlegra og /eða brýnna fjölskylduaðstæðna. Foreldrar í starfi hjá Dalabyggð skulu hvattir til að nýta sér rétt sinn til fæðingar- og foreldraorlofs og eins eru aðrir vinnuveitendur sveitarfélaginu hvattir til gera slíkt sama. Starfsmenn sveitarfélagsins skulu hafa möguleika á sveigjanlegu orlofi eftir því sem við verður komið. Ábyrgð á þessu bera yfirmenn stofanana/deilda og er þetta viðvarandi verkefni.

 

5) Kynbundið obeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni:Allir starfsmenn eiga rétt á að komið sé fram við þá af virðingu. Kynbundið obeldi, kynbundin áreitni og/eða kynferðisleg áreitni er með öllu óheimil á vinnustöðum sveitarfélagsins. Starfsmenn sveitarfélagsins og forsvarsmenn íþrótta- og æskulýðsstarfs bera ábyrgð á að þess sé gætt að starfsfólk, nemar, iðkendur og aðrir notendur verði ekki fyrir kynbundu ofbeldi, kynferðislegu áreiti né kynbundnu áreiti. Verði uppvíst um slíka hegðun ber að gera viðkomandi yfirmanni eða trúnaðarmanni viðvart og skal endir bundinn á hana. Þolandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni. Alvarleg eða endurtekin áreitni varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi. Nefndin kalli eftir aðgerðaráætlun við kynferðislegri og kynbundinni áreitni frá stofnunum annað hvert ár að hausti.  Ábyrð á þessu bera yfirmenn stofnana/deilda og er þetta viðvarandi verkefni.

 

6) Menntun og tómstundir: Lögbundið er að veitt skuli fræðsla um jafnréttismál á öllum skólastigum, m.a. með því að leggja áherslu á að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Þess skal gætt að bæði kynin hafi sömu tækifæri til íþróttaiðkana og eru ungmennafélögin hvött til hins sama. Allar stofnanir sem koma að umönnun/uppeldi barna í sveitarfélaginu skulu gera jafnréttisáætlun varðandi starfsemi sína og bera forstöðumenn þeirra stofnana ábyrgð á því. Ef slíkar áætlanir eru ekki til skulu þær verða gerðar eigi síðar en 31. ágúst 2016. Skólayfirvöld skulu vinna að jafnri stöðu kynjanna og veita börnum og unglingum hvatningu til að rækta sérkenni sín og jákvæð samskipti kynjanna. Einnig er því beint til skólayfirvalda; að sjá til þess að námsefni mismuni ekki kynjum, að náms- og starfsfræðslu sé sinnt á síðari stigum grunnskóla, að sjálfstyrking verði sjálfsagður hluti námsins á öllum skólastigum. Þetta er viðvarandi verkefni og er á ábyrgð skólastjóra og forstöðumanna.

 

7) Fræðsla og leiðsögn: Jafnréttisnefnd skal hvetja til fræðslu um jafnréttismál og leiðir til þess að jafna stöðu karla og kvenna. Öllum starfsmönnum sveitarfélagsins skal standa slík fræðsla til boða.  Einnig skulu þeir eiga rétt á ráðgjöf og leiðsögn við einstök mál. Jafnréttisnefnd skal veita öllum íbúum Dalabyggðar sem þess óska fræðslu og aðstoð í jafnréttismálum.  Einnig skal nefndin leiðbeina íbúum við kærur til kærunefndar jafnréttismála. Sveitarstjóri ber ábyrgð á því að gera kynningarefni um jafnrétti aðgengilegt fyrir stjórnendur stofnana og að bjóða kjörnum fulltrúum, stjórnendum og starfsmönnum upp á fræðslu um stöðu jafnréttismála. Sveitarstjóri kalli eftir áætlunum hverrar stofnunar annað hvert ár.

 

8) Annað: Jafnréttisnefnd f.h. sveitarstjórnar Dalabyggðar veitir einu sinni á hverju kjörtímabili viðurkenningu til þeirrar stofnunar eða fyrirtækis í sveitarfélaginu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunarinnar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki.

 

Jafnréttisáætlunin skal send inn á hvert heimili, fyrirtæki og stofnanir sveitarfélagsins og vera aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlun skal endurskoða í upphafi hvers kjörtímabils og skal gerð áætlun um framkvæmd jafnréttisáætlunar til tveggja ára í senn.

 

Samþykkt á fundi félagsmálnefndar 2. júní 2016

 

Staðfest á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 21. júní 2016