Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700
    Fax: 434 1212
    dalir@dalir.is

Reglur um félagslega heimaþjónustu í Dalabyggð


 

1. gr.

Markmið félagslegrar heimaþjónustu er að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður.

 

2. gr.

Hlutverk félagslegrar heimaþjónustu er að veita:

a) aðstoð við heimilishald

b) aðstoð við persónulega umhirðu

c) félagslegan stuðning

d) aðstoð við umönnun barna

 

3. gr.

Skilyrði þess að geta fengið félagslega heimaþjónustu er að aðstoðarþegi búi í heimahúsum og að hvorki hann né aðrir heimilismenn geti hjálparlaust séð um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar.Aðstoðarþegi skal vera heima meðan starfsmaður er við störf.

 

4. gr.

Félagsmálanefnd fer með stjórn félagslegrar heimaþjónustu á vegum Dalabyggðar.

 

5. gr.

Skrifstofa Dalabyggðar annast daglegan rekstur.

Starfsemi er tvískipt sem hér greinir:

a) heimaþjónusta fyrir ellilífeyrisþega sbr. ákvæði 15. gr. laga nr. 82/1989 og reglugerð nr. 46/1990

b) heimaþjónusta fyrir 66 ára og yngri sbr. ákvæði 28. gr. laga nr. 40/1990 og ákvæði 8. gr. lið 1, 24. gr. og  25. gr. laga nr. 59/1992

 

6. gr.

Áður en aðstoð er veitt skal félagsmálanefnd meta þjónustuþörf, þegar við á, í samráði við heilsugæslulækna, þjónustuhóp aldraðra, svæðisskrifstofu fatlaðra og fleiri fagaðilar.

 

Meta skal hvert einstaka tilvik og skal leitast við að veita þá þjónustu sem viðkomandi eða aðrir heimilismenn eru ekki færir um að annast sjálfir.

Læknisvottorð skal liggja fyrir, ef ástæða þykir til.

 

Forstöðukona Silfurtúns meti þjónustuþörf innan heimilisins og sjái um skipulag og framkvæmd hennar. Forstöðukona skili skýrslu um umsóknir og afgreiðslu á félagslegri heimaþjónustu til félagsmálanefndar.

 

7. gr.

Stefnt skal að því, að sem flestir starfsmenn hafi lokið sérstökum námsskeiðum fyrir starfsfólk í félagslegri heimaþjónustu.

 

8. gr.

Félagsmálanefnd skal setja reglur og leiðbeiningar fyrir starfsfólk félagslegrar heimaþjónustu, þar sem m.a. eru nánar tiltekin verkefni starfsmanna, skyldur þeirra og réttindi. Kynna skal reglur þessar fyrir starfsfólki og aðstoðarþegum.

 

9. gr.

Starfsmenn félagslegrar heimaþjónustu eru ráðnir af sveitarstjóra Dalabyggðar og taka laun sín frá Dalabyggð og gilda þar launakjör samkvæmt samningi milli Launanefndar sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsness.

 

Starfsmönnum er óheimilt að taka við greiðslum eða gjöfum frá aðstoðarþegum. Starfsmenn eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir verða vísir í starfi sínu um einkamál manna og heimilishald.

 

10. gr.

Ef starfsmaður þarf vegna vinnu sinnar að aka lengri vegalengd en 5 kílómetra til og frá vinnustað greiðir sveitarfélagið akstur umfram þá vegalengd skv. aksturstaxta ríkisins.

 

Starfsmanni er óheimil notkun bifreiðar aðstoðarþega.

 

11. gr.

Heimaþjónusta skal að jafnaði veitt á dagvinnutíma frá mánudegi til föstudags. Þjónusta utan þess tíma skal eingöngu veitt ef fyrir liggur samþykki félagsmálanefndar að undangengnu mati á aðstoðarþörf sbr. 6. gr.

 

12. gr.

Fyrir félagslega heimaþjónustu skal greitt samkv. endurgeiðslureglum sem hreppsnefnd setur að fengnum tillögum frá félagsmálanefnd.

 

13. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og öðlast þegar gildi.

 

Jafnframt eru felldar úr gildi reglur um félagslega heimaþjónusta í Dalabyggð frá 21. febrúar 1995.

 

 

Samþykkt í félagsmálanefnd 9. október 2003

Samþykkt í sveitarstjórn 16. desember 2003