Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Silfurtún - erindisbréf


 

Stjórnskipuleg staða

Stjórn Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns er skipuð af sveitarstjórn Dalabyggðar skv. 18. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraða og 48. gr. Samþykktar um stjórn Dalabyggðar nr. 926/2013.  Stjórnin heyrir undir sveitarstjórn.

 

Skipan stjórnar

Sveitarstjórn kýs þrjá fulltrúa úr röðum sveitarstjórnarmanna og þrjá til vara. Starfsmannaráð hefur rétt til að tilnefna einn fulltrúa af sinni hálfu til setu á fundum stjórnar með málfrelsi og tillögurétt. Sama gildir um ráð heimilismanna.

 

Hlutverk og markmið

Hlutverk stjórnarinnar er:

· 

Að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um rekstur Dvalar- og hjúkrunarheimilisins Silfurtúns (hér eftir nefnt Silfurtún).

·

Að gera tillögur til sveitarstjórnar um markmið og rekstur Silfurtúns.

·

Að fylgja eftir að samþykkt markmið sveitarstjórnar í þessum málaflokkum nái fram að ganga.

·

Að starfa með sveitarstjóra og forstöðumanni Silfurtúns.

·

Að hafa umsjón með gjafafé sem heimilinu berst og ráðstöfun þess í samráði við forstöðumann.

·

Að gera tillögur um úrbætur á því sviði sem undir hana heyrir.

 

Starfshættir

Um starfshætti nefnda og stjórna er sérstaklega getið í VI. kafla samþykktar um stjórn Dalabyggðar og skal þeim fylgt eftir því sem við á.

 

Stjórn Silfurtúns kemur saman fyrir luktum dyrum á fastákveðnum fundartíma, samkvæmt fundaplani. Skal stjórnin gera samþykkt um þennan fundartíma á sínum fyrsta fundi að höfðu samráði við sveitarstjóra.

 

Stjórn skal halda gerðarbók.  Í gerðabók skal skrá hvar og hvenær fundur er haldinn, hverjir sitja hann og hvenær honum lýkur. Skrá skal einstök mál, sem tekin eru fyrir á fundinum, hvenær þau komu til, nöfn hlutaðeigandi, meginefni og afgreiðslu stjórnarinnar. Í lok fundar skal fundargerðin lesin upp og allir viðstaddir undirrita hana.

 

Fundargerðum kemur formaður stjórnarinnar til skrifstofu Dalabyggðar sem hefur umsjón með frágangi undargerðarinnar og leggur hana fram með dagskrá næsta sveitarstjórnar.

 

Formaður stjórnar sér um boðun funda. Fundarboðun skal vera skrifleg og tilgreina fundarstað, tíma og dagskrá. Fundarboð skal sent stjórnarmönnum og öðrum sem seturétt hafa á fundum eigi síðar en tveimur sólarhringum fyrir fund.

 

Formaður stýrir fundum stjórnarinnar.

 

Fundur telst ályktunarhæfur ef meirihluti stjórnarinnar er mættur á fund. Í atkvæðagreiðslu ræður afl atkvæða.   Mál telst fallið í atkvæðagreiðslu ef atkvæði falla að jöfnu með og á móti.

 

Eftirfylgni

Formaður og aðrir stjórnarmenn skulu snúa sér til sveitarstjóra með eftirfylgni staðfestra samþykkta stjórnarinnar.

 

Réttindi og skyldur stjórnarmanna

Um réttindi og skyldur stjórnarmanna gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og samþykktar um stjórn Dalabyggðar.

 

Stjórnarmanni er skylt að sækja fundi nema lögmæt forföll hamli. Skal hann boða  staðgengil sinn og láta formann vita um forföll með góðum fyrirvara.

 

Hver stjórnarmaður á rétt á að koma máli á dagskrá fundar, enda skilar hann efni þess til formanns eða sveitarstjóra a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund.

 

Stjórnarmenn skulu hafa hag sveitarfélagsins að leiðarljósi við stjórnarstörf sín en eru ekki bundnir af öðru en sannfæringu sinni, lögum og samþykktum um stjórn Dalabyggðar í atkvæðagreiðslu um málefni á vegum stjórnarinnar.

 

Fundarmenn eru bundnir þagnarskyldu vegna mála, sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir stjórnina og ætla má að eigi leynt að fara skv. eðli máls, lögum eða samþykkt 2/3 stjórnarmanna, hvort sem þau varða einka- eða almannahagsmuni.

 

Stjórnarmaður skal víkja af fundi við umræður og afgreiðslu mála sem varða hann sjálfan, skyldmenni hans eða nánustu venslamenn svo mjög að ætla má að það móti afstöðu hans að einhverju leyti. Honum er þó heimilt að gera stuttlega grein fyrir afstöðu sinni áður en hann víkur af fundi.

 

Lög og reglugerðir

Í störfum sínum skal stjórnin taka mið af þeim lögum og reglugerðum, sem undir starfssvið hennar heyrir, sérstaklega þó lög sem um heilbrigðisstofnanir og málefni aldraðra gilda hverju sinni. Þá skal stjórnin fylgja samþykkt um stjórn Dalabyggðar.

 

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 20. mars 2014.