Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Íbúagátt Endurvinnslukort

Spurningin

Hvað skoðar þú vef Dalabyggðar oft?
7. apríl 2007 11:59

Jörfagleðin 2007

Kæru Dalamenn og nærsveitungar.

 

Jörfagleði 2007 fer fram 18. til 22. apríl nk. og er undirbúningur hennar í fullum gangi. Margt verður í boði á hátíðinni en hún á 30 ára afmæli í ár.

 

 

Jörfagleðin byrjar með leiksýningu frá Þjóðleikhúsinu á miðvikudagskvöldinu 18. apríl. Sýnt verður leikritið Patrekur 1,5 sem hefur fengið góða dóma víðsvegar. Ráðgert er að hafa pöbbakvöld eftir sýninguna.

 

Það borgar sig að taka sumardaginn fyrsta snemma því að margt er í boði þann daginn. Dagurinn hefst með Æskulýðs- og skátamessu í Hjarðarholti kl. 11:00 og verða nýir skátar vígðir. Þá tekur við árleg Firmakeppni hesteigendafélagsins kl. 13:00 og í kjölfarið verður opnuð handverkssýning og kaffisala eldri borgara í Rauðakrosshúsinu. Sannkölluð kaffihúsastemming verður í Thomsenshúsi yfir daginn þar sem kvenfélagskonur taka á móti gestum og selja kaffi og með´í. Það verður iðandi mannlíf á hafnarsvæðinu í eftirmiðdaginn því að ætlunin er að opna sýningu á kaffistofu sláturhússins kl. 15:00 og sýningar í „Gamla kaupfélagshúsinu“ kl. 16:00. Um kvöldið er tónlistarkvöld og formleg setningarathöfn í Dalabúð þar sem fram koma tríó Tómasar R. Einarssonar, Vorboðinn, Unnur Sigurðardóttir einsöngvari og Kvennakórinn Ymur.

 

Á föstudeginum er boðið upp á margskonar námskeið fyrir börn og unglinga. Sýningar í sláturhúsinu og í „Gamla kaupfélagshúsinu“ verða opnar milli kl. 14:00 og 20:00 og um kvöldið verður skemmtikvöld í Árbliki. Við lofum fjörugu skemmtikvöldi með skemmtikröftum úr ýmsum áttum og Nikkólína leikur fyrir dansi fram eftir kvöldi.

 

UDN efnir til knattspyrnumóts á laugardeginum á Laugum og hefst það kl. 10:00. Á Laugum verður einnig boðið upp á myndlistarnámskeið fyrir börn á aldrinum 9 til 12 ára. Markaðsdagur verður haldinn í björgunarsveitarhúsinu frá kl. 13:00 til kl. 17:00 og allar sýningar opna kl. 12:00 sama dag. Þann daginn bætast við fjölmargar áhugaverðar og skemmtilegar sýningar í Grunnskólanum í Búðardal.

 

„Garðagleðin“ fer síðan af stað kl. 18:00 og stendur til kl. 22:00 og við tekur stórdansleikur með hljómsveitinni Á móti sól. Við bjóðum Magna að sjálfsögðu velkominn á svæðið.

 

Þjóðlagamessa verður haldin í Staðarhólskirkju á sunnudeginum og Dóra í Skriðulandi verður með kaffihlaðborð frá kl. 14:00 sama dag. Á Skriðulandi verður einnig sýning á gömlum ljósmyndum og verða þær til sýnis þá daga sem Jörfagleði stendur yfir á opnunartíma verslunarinnar. Vortónleikar tónlistarskólans verða haldnir í Tjarnarlundi kl. 13:00 og í Dalabúð kl. 17:00. Seinni vortónleikarnir eru lokaathöfn Jörfagleðinnar í ár.

 

Við tökum undir vel valin orð Ungmennafélagsins Æskunnar:

 

Fögnum komu sumars með fagurri ásýnd Dalanna.

 

Mætum vel á Jörfagleði og eigum ánægjulega lista- og menningardaga. Dagskránni verður dreift fljótlega eftir páska.

 

 

Gleðilega páska.

Jörfagleðinefnd.