5. maí 2011 10:46
Dalagarpar
Stofnaður hefur verið gönguhópur í Dölum, Dalagarpar. Sunnudaginn 8. maí verður fyrsta ganga gönguhópsins farin á Tungumúla, sem er á milli Sælingsdals og Svínadals. Gangan er létt og hentar alveg stálpuðum börnum.
Farið verður frá Sælingsdalstungu kl. 11.00 og nesti snætt í Múlanum. Jón Benediktsson (Nonni) gengur með hópnum og upplýsir fólk um staðhætti og örnefni.
Að göngu lokinni verður opið í sundlauginni á Laugum, þökk sé Önnu og Jörgen. Áætlað er að vera komin í sundið milli kl. 13.-14.
Veðurspá er góð en rétt að minna á að enn er ekki kominn mikill lofthiti. Ekki er þörf á sérstökum útbúnaði nema þá sundfatnaði og aðgangseyri fyrir þá sem ætla í sundið.
Meiningin er að í þessari fyrstu ferð verði tíminn m.a. notaður til að spjalla saman, koma með hugmyndir að gönguleiðum og útfærslu þeirra.
Allir eru velkomnir í gönguferðina og þeir sem hafa áhuga á að kynna sér málið geta litið inn á heimasíðu hópsins www.dalagarpar.blogspot.com Þeir sem vilja skrá sig í gönguhópinn sendi endilega skráningu á netfangið dalagarpar@gmail.com